Spurt og svarað um Vestfjarðalínu

Hvað er Vestfjarðalína?

Vestfjarðalína er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum. Það kallar á jarðgangagerð og umfangsmiklar vegabætur sem styttir ferðatíma, eykur umferðaöryggi og dregur úr viðhaldsþörf.

Hvað kostar Vestfjarðalína?

Áætlað er að þau fimm nýju göng og sú breikkun sem lögð eru til sem fyrsti hluti Vestfjarðalínu, kosti um 84 milljarða, byggt á kostnaðargreiningum Vegagerðarinnar. Sjá frekari umfjöllun um framkvæmdir.

Hvernig á að fjármagna þetta?

Ein ástæða þess að Vestfjarðalína leggur til að þessar framkvæmdir verði sameinaðar í sérstaka samgönguáætlun fyrir Vestfirði er að þá opnast möguleikar á innviðafjármögnun. Innlendir og alþjóðlegir innviðafjárfestar gera oft kröfu um lágmarksstærð verkefna, og ein göng eða ein brú er í mörgum tilfellum of lítið verkefni fyrir slíkt fjármagn. Með sérstakri samgönguáætlun opnast möguleikar á sértækri innviðafjármögnun frá bæði innlendum og erlendum fjárfestum. Auk innviðafjárfesta, ætti að líta til sértækrar fjármögnunar frá hinu opinbera með sölu ríkiseigna, líkt og fordæmi hefur skapast fyrir með samgöngusáttmálanum á höfuðborgarsvæðinu.

Eru þetta nýjar hugmyndir?

Nei, í sjálfu sér ekki. Mikil sátt er um að þau göng og þær vegbætur sem lagðar eru til séu nauðsynlegar til að tengja Vestfirði innbyrðis, og að tengja fjórðunginn við höfuðborgarsvæðið með öruggum, áreiðanlegum heilsársvegi. Hins vegar er nýtt af nálinni það ákall félagsins að leitað verði leiða til að fjármagna verkefnið sérstaklega, sem kemur til því ekki er gert ráð fyrir nýjum göngum á Vestfjörðum næsta áratuginn.

Hver stendur á bak við Vestfjarðalínu?

Á bak við Vestfjarðalínu stendur Innviðafélag Vestfjarða.

Afhverju geta Vestfirðingar ekki beðið?

Núverandi áætlanir gera ráð fyrir að næstu göng líti dagsins ljós á Vestfjörðum árið 2040. Á sama tíma er ævintaralegur uppgangur á Vestfjörðum þrátt fyrir að ferðafólk heimsæki fjórðunginn í mun minna mæli en aðra landshluta (og ætla má að torveldar samgöngur séu hluti af ástæðunni). Tenging atvinnusvæða, og annarra þéttbýliskjarna við grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu á svæðinu er algjört grundvallaratriði og ekki ásættanlegt að engin hreyfing verði fyrr en fyrir miðja öld. Með sérstakri samgönguáætlun fyrir Vestfirði sem er fjármögnuð sérstaklega, er markmiðið að auka slagkraft innviðauppbyggingar á Íslandi.

Ég er með spurningar eða ábendingar, hvert sendi ég þær?

Við fögnum spurningum og ábendingum, sendu okkur endilega á [email protected].