Hvað er Vestfjarðalína?

Vestfjarðalínan er framtíðarsýn um betri samgönguinnviði Vestfjarða. Hún vísar til öflugra heilsárstenginga milli atvinnusvæða á Vestfjörðum, öruggari samgangna frá öllum þéttbýlissvæðum, og vegurinn frá höfuðborgarsvæðinu til Vestfjarða yrði að mestu leyti láglendisvegur.

Vestfjarðalínan er ákall um gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði þar sem samgöngum er lyft á viðunandi stall á næstu 10 árum. Það kallar á jarðgangagerð og umfangsmiklar vegabætur sem styttir ferðatíma, eykur umferðaöryggi og dregur úr viðhaldsþörf. Með breyttu viðhorfi og nálgun í uppbyggingu samgönguinnviða má flýta framkvæmdum, finna leiðir til fjármögnunar og forgangsraða með sanngjörnum hætti.

Skoðaðu verkefnin á korti

Þú getur skoðað Vestfjarðalínuna, göngin, og vegina sem þarf að byggja upp, á fallegu korti. Þar eru helstu upplýsingar um verkefnin, kostnað, staðsetningu, og fleira.
Skoða Vestfjarðalínuna

100 milljarða skattspor Vestfjarða

Á Vestfjörðum myndast gríðarleg verðmæti í fjölmörgum atvinnugreinum. Uppgangur síðustu ára í atvinnulífi fjórðungsins hefur aukið verulega skattspor Vestfjarða. Samkvæmt greiningu Innviðafélags Vestfjarða skilaði atvinnulífið á svæðinu um 40 milljörðum króna í sameiginlega sjóði á árunum 2019 til 2022. Með fyrirsjáanlegum vexti lykilfyrirtækja eykst skattspor Vestfjarða og verður nærri 62 milljörðum á tímabilinu 2023 til 2027. Sá vöxtur er meðal annars grundvallaður á fjárfestingu innviða. Atvinnulífið mun því alls skila rúmlega 100 milljarða skattgreiðslum á tímabilinu sem greiningin nær til. Það er ekki lítið, fyrir fámennasta landshlutann fóstrar 2% þjóðarinnar.

En betur má ef duga skal. Vilji þjóðin njóta áfram góðs af vexti atvinnulífs Vestfjarða og auka skatttekjur eru afgerandi samgöngubætur nauðsynlegar.

Nýjar leiðir í samgöngumálum eru mögulegar

Eftir margra áratuga vanrækslu á vegakerfi Vestfjarða hefur loks komist hreyfing á framkvæmdir í fjórðungnum. En innviðaskuld ríkisins á Vestfjörðum er há og hana verður að greiða. Nýlegar vegaframkvæmdir og áætlaðar samgöngubætur ná skammt til nauðsynlegra framkvæmda og viðhalds sem safnast hefur upp á löngum tíma.

Vestfjarðalínan og gerð sérstaks samgöngusáttmála fyrir Vestfirði, er ætlað að jafna þessa innviðaskekkju. Vestfjarðalínan ætti að vera samvinnuverkefni ríkisvaldsins, atvinnulífs og sveitarfélaga á Vestfjörðum. Að fyrirmynd Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins ætti að leita leiða til sértækrar fjármögnunar, til að mynda með sölu ríkiseigna, eyrnamerktum skatttekjum og sérstakri lántöku. Skoða þyrfti samstarf við íslenska lífeyrissjóði og sérhæfðra fjármálastofnana í fjármögnun samgönguinnviða.

Þannig yrði framkvæmdum flýtt svo Vestfirðir gætu áfram vaxið og dafnað.

Gerum þetta saman!